miðvikudagur, september 28, 2005

Sæstrengurinn, stendur fyrir sínu ( sá danski )

Loksins, loksins hugsa sennilega margir. Ég veit þetta hefur verið löng bið
en það er komið að því, pistill vikunnar að líta dagsins ljós!!!
Hvað hefur nú gerst síðastliðna viku?? Ekki held ég að það hafi mikið gerst
fyrir helgina en svo á föstudaginn ákvað minn að skella sér í smá reisu og
var stefnan tekin á Óðinsvé eða Odense eins og þeir segja það á dönskunni og
liggur sú borg, samkvæmt landakort, á eyjunni Fyn, betur þekkt sem Fjón á
íslenskri tungu. Kunni ég nú í fyrsta lagi ekkert á hvernig sætaskipan í
lestinni virkar þannig að þegar ég komst í Hróaskeldu var maður rekinn úr
sætinu af einhverjum dömum sem áttu sætin pöntuð. Tók svo DC á móti mér á
lestarstöðinni og framhaldið af því sem ég gerði er hægt að lesa á hennar
síðu. Fínasta ferð og varð ég mjög hrifinn af þessum ágæta bæ. Einnig vil ég
þakka DC fyrir mjög góða gestrisni.
Nú segja veðurglöggir menn hér í Danaveldi að haustið sé komið og búast þeir
við rigningu og kaldara veðri næstu daga, ekki nema svona 14-15 gráðum eða
svo!!! Tel ég þetta vera ágætis hitastig fyrir Íslending eins og mig sem
ætti það á hættu að vera kannski í einhverjum 3-5 gráðum ef maður væri
staddur á Klakanum, og kvarta ég því ekki. Ekki hægt að segja annað en að
maður sé nokkuð svalur hér enda ennþá á stuttermabolnum á meðan danirnir
klæða sig í úlpurnar og haustjakkana, já já já!!!
Þegar maður býr í svona stórri borg, miðað við íslenskan mælikvarða, þá eru
alltaf einhverjir sem skera sig úr og ná athygli manns. Alltaf þegar maður
sér svoleiðis fólk þá langar manni að taka mynd en nei, gleymdi maður ekki
myndavélinni heima í dag!!! Sá t.d. einn gamlan jask með mikið skegg og
skemmtilega klæddur með þvílíka spiladós og var hann sveittur á sveifinni að
spila á hana. Ekki gat minn verið með myndavélina. En nú ætla ég að setja
mér það markmið að vera með vélina á lofti alla daga þangað til ég kem heim
og gæti maður nú lumað á myndasýningu ef einhver áhugi er fyrir því!!!
Þegar þetta er skrifað þá var ég að enda við að horfa á leik Liverpool vs.
Chelsea í meistardeildinni og er ég ekkert mjög sáttur og þá sérstaklega
ekki sáttur við frammistöðu dómarans í leiknum. Þeir sem horfðu á leikinn
hljóta að skilja hvað ég að við, ekki viss um að þessi maður viti hvað
vítaspyrnur eru!! Annars stóðu mínir menn sig alveg þokkalega að mínu mati.
En við bætum bara um betur um helgina þegar þessir fuglar koma aftur í
heimsókn á Anfield.
Það sem tröllríður bloggheimum núna er eitthvað sem kallast "KLUKK". Maður
opnar ekki þá bloggsíðu nema lesa eitthvað klukk og geri ég ráð fyrir því að
flestir viti hvað ég er að tala um. Því finnst mér tilvalið að eigandi
þessarar síðu, 4seti, verði enginn eftirbátur í þessu og taki þátt í þessum
"leik". Heppnin er með mér, ég á enga síðu og hef ekki hugsað mér að taka
þátt í þessu.
Miklar dýrðir birtust hér um daginn, þ.e.a.s. myndirnar af dansipallinum
mikla sem beðið hefur verið eftir í ja, nokkur ár!!! Sýnist mér að vel hefur
tekist til þó að ég hafi ekki komið nálægt þessu og hlakka ég mikið til að
komast í návígi við Jacko. Kann ég Didda og öðrum hjálparmönnum bestu þakkir
því án þeirra hefði ég ekki fengið að taka sporið í Vesturholtinu við
heimkomu.

Munið að taka lýsið ykkar krakkar mínir!!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home